SAGA SKÝRR

Forsaga

Notkun véla (handknúinna) við úrvinnslu gagna hófst hér á landi árið 1914, en það ár var Hagstofa Íslands stofnuð. Fyrsti hagstofustjórinn, Þorsteinn Þorsteinsson, lýsir því svo:

“Nokkuð bætti það þó úr skák, að við stofnun Hagstofunnar voru keyptar handa henni tvær reiknivélar, önnur samlagningarvél skrifandi, sem aðallega var notuð við úrvinnslu verzlunarskýrslna, en hin margföldunar- og deilivél. Höfðu slík tæki eigi áður verið notuð hér við hagskýrslugerð.”

Rafmagnsveita Reykjavíkur var fyrsta eða eitt fyrsta fyrirtækið hér á landi til að taka í notkun rafknúna bókhaldsvél. Um það segir Steingrímur Jónsson, rafmagnsstjóri 1921-1960:

“1926 var farið að hugsa um vélar til aðstoðar og 1928 var keypt sérstök reikningaútskriftarvél frá firmanu Burroughs í Bandaríkjunum. Var hún hraðvirk, eftir því sem þá gerðist, og auk þess einföld og rammbyggð. Var hún ein í notkun í 10 ár og var að síðustu unnin með henni vaktavinna.”

Árið 1947 samdi Þorsteinn Þorsteinsson, hagstofustjóri, við “norðurlandafulltrúa IBM-félagins (International Business Machines Corporation) í New York” um að fá hingað til lands afkastamiklar skýrslugerðarvélar (gataspjaldavélar). Þær komu til landsins sumarið 1949, voru settar upp um haustið og teknar í notkun. Í vélum þessum voru unnar verslunar- og manntalsskýrslur.

Vorið 1949 pantaði Rafmagnsveita Reykjavíkur “Hollerith-spjaldavélar” frá IBM. Um það segir Hjörleifur Hjörleifsson, stjórnarformaður Skýrr, er hann minnist tuttugu ára afmælis Skýrr árið 1972:

“Á þessum árum var hér gjaldeyrisskortur, og reyndist ómögulegt fyrir Rafmagnsveituna að fá gjaldeyrisleyfi fyrir vélaleigunni, og öllum framkvæmdum seinkaði.”

Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurbæjar stofnaðar

Árið 1950 stóð til að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin tæki þátt í berklarannsóknum hér á landi og til að gera það mögulegt þurfti gataspjaldakerfi. Dr. Sigurður Sigurðsson, berklayfirlæknir og síðar landlæknir, lagði þá til að Hagstofan, Rafmagnsveita Reykjavíkur og Heilsuverndarstöð ríkisins hefðu samvinnu um vélasamstæðu, eins eða líka þeirri sem Rafmagnsveitan hafði pantað árið áður. Í þeim vélbúnaði mátti vinna með bókstafi (skrá nöfn o.þ.h.) en í vélum Hagstofunnar frá 1949 var einungis unnt að vinna með tölustafi. Nú fékkst loks innflutningsleyfi fyrir vélbúnaðinum og í framhaldi af því var stofnun Skýrsluvéla ríkisins og Reykjavíkurbæjar afráðin og þær svo formlega stofnaðar árið 1952.

Vélbúnaður Skýrsluvéla kom til landsins í byrjun árs 1952 og var settur niður í 24 m2 herbergi í húsnæði Rafmagnsveitu Reykjavíkur í Tjarnargötu 12. Fyrstu verkefnin sem tekin voru til vinnslu í vélunum voru innheimtukerfi Rafmagnsveitunnar og verslunarskýrslur Hagstofunnar og var sú vinnsla komin í reglulegt horf í júnímánuði.

Þótt starfsemi sameignarfélags um skýrsluvélar væri í raun hafin var formlegur fundur “til undirbúnings félagsstofnunar um rekstur skýrsluvéla” ekki haldinn fyrr en 15. júlí 1952. Annar undirbúningsfundur var haldinn 23. júlí og loks stofnfundur 28. ágúst þegar fyrir lá formlegt samþykki eigendanna; ríkisstjórnarinnar og bæjarráðs Reykjavíkur. Vegna aðildar sinnar að málinu sat Sigurður Sigurðsson í stjórn Skýrsluvéla fyrsta áratuginn, en Heilsuverndarstöð ríkisins varð ekki sem slík beinn aðili að fyrirtækinu.

Heiti fyrirtækisins, eignarhlutföll, rekstrarform

Sem fyrr segir hét fyrirtækið í upphafi Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurbæjar. Hinn 13. apríl 1962 gerðu eigendurnir með sér nýjan sameignarsamning og breyttist þá nafn fyrirtækisins í Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurborgar. Í samningnum voru eignarhlutföll ákveðin sem hér segir:

Ríkisstjórnin  50%  
Borgarsjóður  25%  
Rafmagnsveita Reykjavíkur  25%  

Fyrstu tvo áratugina var fyrirtækið gjarnan kallað Skýrsluvélar, til styttingar í daglegu tali. Í janúar 1972 notaði stjórnarformaðurinn, Hjörleifur Hjörleifsson, fyrst skammstöfunina eða stuttnafnið SKÝRR í greinargerð. Segja má að það hafi verið gripið á lofti og það varð mönnum fljótlega munntamt. 1. janúar 1996 var fyrirtækið gert að hlutafélagi í eigu sömu aðila og þá ákveðið að nafn þess skyldi verða Skýrr hf.

Í nóvember árið 1996 ákváðu framangreindir eigendur Skýrr hf. að selja 51% af eignarhlut sínum í fyrirtækinu í lokaðri sölu. Jafnframt var starfsmönnum gefinn kostur á að kaupa 5% hlut á hagstæðum kjörum. Að loknu söluferli í tveimur hlutum keyptu Opin kerfi hf. 51% hlutann í maímánuði 1997. Í nóvember 1998 seldu Rafmagnsveita Reykjavíkur, Reykjavíkurborg og ríkissjóður loks 44% eignarhlut þann er eftir stóð í almennu hlutafjárútboði. Þar með var Skýrr hf. orðið að fullu einkavætt. Skýrr hf. var skráð á aðallista Verðbréfaþings Íslands 1. júlí 1999.

Húsnæði

Skýrsluvélar hófu starfsemi sína í Tjarnargötu 12, sem fyrr segir. Þar varð fljótlega þröngt um starfsemina og árið 1957 voru þær fluttar í um 160 m2 húsnæði að Skúlagötu 59. Þar var fyrirtækið til húsa í sjö ár eða til ársins 1964. Árið 1961 var fyrsta tölva Skýrsluvéla, sem þá nefndist rafreiknir, pöntuð (IBM 1401) og miðað við að hún yrði afhent í ársbyrjun 1963. Ljóst var að húsnæðið á Skúlagötunni uppfyllti hvergi nærri kröfur sem gerðar voru vegna tölvunnar og var því leitað eftir öðru húsnæði. Fullnægjandi leiguhúsnæði reyndist ekki auðfengið og var því að lokum ákveðið að ráðast í að byggja nýtt hús yfir starfsemina. Afhendingu tölvunnar var frestað til haustsins 1964, en þá stóð nýja húsið fullbyggt að Háaleitisbraut 9 (það er nú Ármúli 2). Húsið var í upphafi liðl. 700 m2 að flatarmáli en hefur verið stækkað í áföngum og losar nú 2.000 m2. Starfsemin sprengdi þetta húsnæði af sér fyrr en varði og á tímabili var hluti starfseminnar fluttur í leiguhúsnæði og húsnæði sem keypt var en hefur nú verið selt. Húsnæðið að Ármúla 2 var allt endurhannað og lagfært á árunum 1998 og 1999 og þar rúmast nú, á miðju ári 2000, allt starfslið Skýrr, um 150 manns. Fyrir dyrum stendur að auka við húsið að Ármúla 2 með viðbyggingu.

Starfsemin

Starfsemi og hlutverk Skýrr hefur tekið miklum breytingum í tímans rás. Fyrstu fjórtán árin voru öll vinnslugögn skráð í gataspjöld og mest áhersla lögð á að nýta sameiginlega og sem best dýran vélbúnað ásamt því að hanna og reka veigamikil vinnslukerfi fyrir hinar ýmsu stofnanir ríkis og sveitarfélaga. Með tilkomu segulmiðla árið 1968 og síðan fjarvinnslu um eða upp úr 1973, breyttust áherslur óhjákvæmilega. Verð vélbúnaðar fór hlutfallslega lækkandi en vinnslukerfin urðu sífellt flóknari og viðameiri og þar með dýrari. Fjarvinnsla og önnur fjarskiptatækni óx hröðum skrefum og starfsemin færðist er á leið yfir á svið fjarskipta- og upplýsingatækni - upplýsingaiðnaðar, sem svo nefnist.

Til dæmis um nýjungar á sviði fjarskiptatækni má nefna að Skýrr býður sívinnslunotendum nú upp á afar öflugt örbylgjusamband sem nefnist LoftNet Skýrr og með svonefndri Kerfisleigu býður Skýrr fyrirtækjum að leysa þau undan því að reka sjálf tölvukerfi og deildir ásamt öllu sem slíkum rekstri fylgir en kaupa þess í stað þessa þjónustu hjá Skýrr á umsömdum kjörum. Með Kerfisleigunni eru upplýsingakerfi fyrirtækja og stofnana vistuð miðlægt á öflugum miðlurum Skýrr og vöktuð þar með fullkomnum hætti. Viðskiptavinurinn vinnur með kerfi sín sem þau væru staðsett innan eigin veggja og nýtur besta vélbúnaðar, öryggis og tækni sem völ er á á hverjum tíma. Starfsmenn Skýrr annast hinsvegar vörslu kerfanna og rekstur.

Starfslið

Starfslið Skýrr hf. telur nú, á miðju ári 2000, nær 150 manns. Í upphafi voru starfsmenn Skýrsluvéla 4-5 en tíu árum síðar, árið 1962 voru þeir orðnir 13. Á tuttugu ára afmælinu, árið 1972, voru starfsmenn orðnir 50, árið 1982 liðlega 90 og árið 1992 taldi starfsliðið hátt í 140 manns.

Vélbúnaður og vinnslutækni

Fyrstu gagnavinnsluvélar Skýrr voru sem fyrr er að vikið samstæða gataspjaldavéla frá IBM. Aðal töflugerðarvélin, IBM 405, sem kom til Skýrr árið 1952, gat ritað allt að 80 línum á mínútu. Upp úr 1960 voru töflugerðarvélarnar orðnar þrjár talsins og gátu til samans ritað hátt í 300 línur á mínútu (um eða yfir 30.000 stafi) og þótti það ekkert smáræði.

Árið 1964 fékk Skýrr fyrstu tölvuna sem fyrr getur, IBM 1401, með 4000 stafa kjarnaminni (4K). Tölvan var vinnuhestur og gat skilað flóknum og viðamiklum verkefnum. Prentari tölvunnar, IBM 1403, hafði þrefalda skrifgetu allra töflugerðarvélanna þriggja, sem hann leysti af hólmi. Tölvan gat þó aðeins sinnt einu verkefni í einu og gagnamiðillinn var eftir sem áður gataspjöld.

Haustið 1968 fékk Skýrr IBM 360/30 tölvu sem búin var segulböndum, seguldiskum og lesstöð fyrir gataræmur. Með þessari tölvu var brotið blað í tölvuvinnslu Skýrr því þá færðust t.d. allar viðamestu gataspjaldaskrárnar yfir á segulbönd. Fimm árum síðar, eða árið 1973, urðu enn þáttaskil þegar Skýrr fékk til umráða IBM 370/135 tölvu en með þeirri vél hófst samhliðavinnsla fyrir alvöru, þ.e að hægt var að hafa í tölvunni mörg verk í gangi samtímis.

Fram til ársins 1979 voru öll verkefni hjá Skýrr unnin sem runuvinnslur. Það ár hófst enn nýtt þróunarskeið þegar sívinnsla hófst með tengingum við útstöðvar hjá notendum. Gjaldheimtan í Reykjavík var meðal þeirra fyrstu til að tengjast með þessum hætti en nú spannar tölvunetið alla þéttbýlisstaði á landinu og sívinnsla er allsráðandi.

Árið 1981 hafði Skýrr yfir að ráða tveimur IBM 4341/14MB tölvum. Tveimur árum síðar eða 1983 var gagnagrunnskerfið ADABAS ásamt 4. kynslóðar forritunarmálinu NATURAL tekið í notkun. Með þeim tólum var stigið stórt skref til framfara. Þá gjörbreyttust aðferðir við gerð sívinnslukerfa, framleiðslutími þeirra styttist og möguleikar á meðferð gagna ukust stórlega.

Innra minni móðurtölva hjá Skýrr hefur aukist gríðarlega frá upphafi og tölvunum fjölgað. Fyrsta tölvan, IBM 1401, hafði aðeins 4K minni, sem fyrr er nefnt, og var sem áður segir leyst af hólmi með IBM 360/30. Sú hafði 16K minni til að byrja með en það var fljótlega stækkað um helming. IBM 370/135 tölvan, sem kom 1973, hafði 96K minni í upphafi en það var orðið um 384K ári síðar. Árið 1976 var tekin í notkun tölva af gerðinni IBM 370/145 með 786K minni. Árið 1978 voru móðurtölvurnar orðnar tvær og innra minni þeirra samtals 1280K. Árið 1984 var enn fjölgað um eina móðurtölvu og innra minni þeirra var samtals orðið 32.000K. Árið 1995 voru móðurtölvurnar orðnar sex og innra minni þeirra samtals 256MB. Þetta voru IBM 3090-300J, með þremur örgjörfum og þrjár millitölvur; ein Digital VAX og tvær HP 9000.

Snemma árs 1999 tók Skýrr í notkun svonefndan ofurmiðlara af gerðinni Hitachi Pilot P37, sem var nýjasta gerð slíks vélbúnaðar frá Hitachi. Heitið ofumiðlari er þýðing á ensku heiti búnaðar af þessu tagi eða “Super Server”. Hlutverk ofurmiðlarans er fyrst og fremst að annast samskipti við fjöldann allan af öðrum tölvum með svonefndum biðlara/miðlara (Client/Server) samskiptum. Pilot P37 annar léttilega um eða yfir 6000 samtímanotendum og tuttugu ljósleiðaratengingar eru notaðar til tenginga við búnað viðskiptamanna; seguldiska, afritunarbúnað, prentara o.fl.

Diskar og snældur

Það er margnefnt hér að fyrstu starfsár Skýrr voru allar upplýsingar sem unnið var með í vélunum skráðar í gataspjöld. Það breyttist árið 1968 með tilkomu IBM 360/30 tölvunnar, segulbanda og diska. Síðan hefur rými á böndum og diskum aukist í risaskrefum: Árið 1985 var rými á diskum 8GB, árið 1990 70GB, fimm árum síðar 150 GB og árið 2000 rúmast á diskum móðurtölva Skýrr um 500GB.

Árið 2000 var tekin í notkun öflugur vélbúnaður sem samanstendur af snældustöð, sem rúmar 500 snældur, og þjarka (vélmenni), sem sækir snældur til vinnslu (IBM 3590-E1A og IBM 3494 L14 og D14). Á einni snældu, 10,5x12 cm, rúmast 40GB af óþjöppuðum gögnum eða 120GB séu gögnin þjöppuð, sem svo er nefnt. Á þeim 500 snældum sem stöðin rúmar má því varðveita efni sem nemur 20.000GB og raunar talsvert umfram það sé hluti þess þjappaður.

Upplýsingamiðstöð

Skýrr myndar upplýsingamiðstöð með því að varðveita viðamiklar skrár og tryggja öryggi þeirra. Notendur tengjast þessum upplýsingum með fjölbreytilegum hætti - um víðnet Skýrr, LoftNet Skýrr, sem áður er nefnt, gagnanet og háhraðanet Landsímans, leigulínur eða upphringisamband.

Heimild: Óttar Kjartansson